Auglýsingar Vodafone sem ganga undir nafninu „Skítt með kerfið” eru ekki brot á siðareglum auglýsingastofa, samkvæmt úrskurði siðanefndar SÍA. Siðanefnd Sambands íslenskra auglýsingastofa, SÍA, tók nýlega fyrir kæru á hendur Vodafone vegna auglýsingarinnar og varð niðurstaða nefndarinnar sú að auglýsingin bryti ekki í bága við siðareglurnar.
Í tilkynningu frá Vodafone kemur fram að fyrirtækið kynnti í sumar þá nýbreytni að símnotendur Vodafone gætu hringt án kostnaðar í vini sína þótt þeir væru síðarnefndu væru hjá öðru símafélagi. Þar með skipti símakerfið ekki lengur máli. Auglýsingaherferðin gekk út á pönkhljómsveit og pönklag með viðlaginu „Skítt með kerfið”. Óttar Proppé söng lagið í auglýsingum fyrirtækisins.
„Ónefndur kærandi taldi að Óttar Proppe og pönklagið hans „Skítt með kerfið” bryti í bága við fjölmargar siðareglur SÍA. Auglýsingin bryti gegn 1., 7. og 13. gr. siðareglna SÍA þar sem textinn væri óguðlegur og ósiðlegur, hann bryti í bága við almennt siðferði og væri óæskilegur. Í úrskurði siðanefndar SÍA segir að auglýsingin brjóti ekki í bága við þessar greinar þar sem ekki er verið að hallmæla fyrirtæki eða samkeppnisvöru, né verið að misnota trúgirni barna eða skaða þau geðrænt eða siðferðislega.
Nefndin telur að notkun samskonar blótsyrða og þess sem fram kemur í umræddri auglýsingu sé orðin það almenn, bæði í daglegu tali fólks og í fjölmiðlum, að birting þess í auglýsingunni brjóti ekki í bága við almenna velsæmiskennd," samkvæmt tilkynningu frá Vodafone.