Ódýrasta íbúðin á höfuðborgarsvæðinu seldist á þremur vikum en dýrasta einbýlishúsið hefur verið á sölu síðan í maí. Það munar hundrað sjötíu og fimm milljónum í verði. MBL sjónvarp kynnti sér hvað liggur að baki.
Dýrasta húsið sem er til sölu á höfuðborgarsvæðinu er fimmhundruð og eins fermetra hús við Asparhvarf í Kópavogi. Ódýrasta íbúðin sem er til sölu er 18 fermetra risíbúð við Njálsgötu. Dýrasta húsið kostar 180 milljónir en ódýrasta 4.9. Í dýrasta húsinu býr sjö manna fjölskylda en því fylgir sér þriggja herbergja íbúð. Í ódýrastu íbúðinni bjó nú síðast erlendur farandverkamaður og á undan honum gömul kona. Í húsinu við Asparhvarf eru fjögur baðherbergi. Baðherbergið á Njálsgötu er sameiginlegt með annarri íbúð. Á Njálsgötu er ekki leyfilegt að hafa kött nema allir nágrannar samþykki það en fullbúið hesthús fylgir húsinu við Asparhvarf. Og íbúar þessara tveggja íbúða hafa afar mismunandi útsýni. Íbúar í þakíbúðinni við Njálsgötu sjá út í bakgarðinn milli Bergþórugötu og Njálsgötu. Þá geta þeir líka séð vítt yfir þökin í bænum til suðurs og allt út á sjó. Íbúar við Asparhvarf hafa útsýni yfir Elliðavatn.
Þrátt fyrir að ládeyða hafi verið á fasteignamarkaði hafa ýmsir hringt í fasteignasöluna Remax eignastýringu og spurst fyrir um dýrasta einbýlishúsið en það fór á sölu í maí. Það er þó mun erfiðara að selja dýrari eignir en áður. Íbúðin við Njálsgötu sem hefur verið til sölu hjá Fasteignasölunni Valhöll frá því í ágúst er hinsvegar nánast seld