Samgöngumálaráðuneytið hefur sent Akraneskaupstað erindi þar sem beðið er um umsögn bæjarins vegna stjórnsýslukæru á hendur bænum. Eyjólfur R. Stefánsson tölvurekstrarfræðingur kærði afgreiðslu tölvumála hjá bæjaryfirvöldum til samgönguráðuneytisins og fer hann fram á að kannað verði hvort jafnræðis hafi verið gætt við við val á aðilum sem sjá skuli um tölvuþjónustu við bæjarfélagið. Jafnframt gerir hann athugasemd við hæfi þeirra sem að ákvörðuninni stóðu.
Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraness, staðfesti að erindið hefði borist. „Þetta mál er bara í höndum okkar lögfræðinga og því verður svarað fyrir tilskilinn frest, 16. september næstkomandi. Persónulega tel ég að eðlilega hafi verið staðið að þessum málum öllum en það kemur bara í ljós þegar ráðuneytið skilar sinni niðurstöðu.“