Leiðandi í samgöngumálum

Rafknúin reiðhjól eru nýjasta farartækið á Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar. Bílastyrkir eða aksturssamningar hafa ekki verið gerðir á Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar frá árinu 2005. Sviðið leigir sömuleiðis nokkra visthæfa bíla.

„Við viljum fylgja þróun sem stefnir í átt að vistvænum farartækjum.Við viljum þess vegna að starfsmenn sviðsins séu öðrum góð fyrirmynd í samgöngumálum,“ segir Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstýra.

Sviðið leigir nokkra visthæfa bíla sem eyða undir 4.5 lítrum á hundraði og hafa útblástur undir 112 gr. á km. Fyrir tveimur árum voru keypt reiðhjól handa starfsmönnum til að fara í styttri ferðir í vinnunni.

„Nú kaupum við rafknúin reiðhjól sem gera okkur kleift að fara lengri ferðir án þess að valda mengun,“ segir Ellý og vonast til að fleiri taki upp þennan samgöngumáta.

Hægt er að smella rafhlöðunni af reiðhjólinu og setja hana í hleðslu og hefur hún reynst mjög endingargóð. Rafhlaðan dugar 50 km að meðaltali og hjálparmótorinn getur knúið hjólið í 25 km hraða.

Reiðhjólin eru einnig létt og meðfærileg eins og venjuleg hjól. „Orkusetur benti okkur á nýja gerð rafhlaðna í reiðhjólum: lithium og við ákváðum að vera í samfloti með þeim og taka nokkur slík í gagnið,“ segir hún.

Um þessar mundir er unnið að samgöngustefnu fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar sem felst í því að draga úr mengun af völdum samgangna og eru rafknúin reiðhjól því góður liðsauki.

„Hlutverk okkar er að prófa nýjungar á þessu sviði og finna leiðir til að vera til fyrirmyndar í samgöngumálum,“ segir Ellý Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert