Ljósmæður sem ætluðu að hlýða á fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem meðal annars var rætt um verkfall ljósmæðra urðu margar hverjar frá að hverfa þar sem einungis 25 konum var hleypt á þingpallana. Verkfall ljósmæðra hefst á miðnætti.
Árdís Kjartansdóttir ljósmóðir sagðist vera mjög ósátt við að vera meinað að hlýða á umræður sem vörðuðu kjör stéttarinnar og Ólöf Ásta Ólafsdóttir ljósmóðir var undrandi og vonsvikin yfir því að vera grunuð um að standa fyrir ólátum á þingpöllunum ef hún fengi að fara inn. Ljósmæðurnar tóku upp hlustarpípurnar og reyndu að nema umræðurnar innandyra. Þá reyndu þær að fá að koma inn að framanverðu.
Katrín Jakobsdóttir þingmaður VG spurði Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra meðal annars hvernig ríkisstjórnin hygðist efna ákvæði stjórnarsáttmálans um að endurmeta störf kvenna hjá hinu opinbera og hvaða umboð ríkisstjórnin hefði veitt samninganefnd ríkisins í málinu. Ráðherrann kvað þrengra um vik að leiðrétta laun einstakra hópa í kjarasamningum sem væru hugsaðir til skamms tíma. Hann vonaðist þó til þess að menn næðu sáttum áður en kæmi til verkfalls eða raunverulegrar hörku. Guðlaug Einarsdóttir formaður Ljósmæðrafélagsins sagði eftir fund með Heilbrigðisnefnd Alþingis í morgun, þar sem verkfallsaðgerðir og áhrif þeirra voru til umræðu, að verkfall ljósmæðra myndi örugglega ekki fara fram hjá neinum sem á annað borð þyrfti á þjónustu ljósmæðra að halda. Hún sagði að þingmenn í Heilbrigðisnefnd hefðu sýnt málinu skilning og gefið fulltrúum Ljósmæðrafélagsins tíma til að útskýra sitt mál vel.