Komin er út
lokaskýrsla um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi sem stýrihópur
samgönguráðherra um málið hefur sent frá sér. Segir meðal annars í
niðurstöðunum að íslensk stjórnvöld þurfi að fylgjast með málinu innan
Evrópusambandsins og koma íslenskri sérstöðu á framfæri þar.
Markmiðið
með setningu kvóta á losun koltvísýrings í flugi er einkum að draga úr
losun hans en einnig að flugumferð á eins til tveggja klukkustunda
leiðum færist yfir á aðrar og umhverfisvænni samgöngugreinar svo sem
lestir og áætlunarbíla, að því er segir í skýrlsunni.
Í ábendingum stýrihópsins til stjórnvalda segir meðal annars að það sé stefna íslenskra stjórnvalda að Ísland leggi sitt að mörkum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en hópurinn bendir á að þátttaka flugs í viðskiptakerfinu að öðru óbreyttu geti raskað samkeppnisstöðu Íslands og þrengt rekstrarsvigrúm íslenskra flugrekenda samanborið við aðra í Evrópu.
Með fullri þátttöku verði framlag Íslands til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda hlutfallslega meira en annrra ríkja. Ástæðan sé fyrst og fremst sérstaða Íslands vegna legu landsins og vegna mikillar hlutdeildar flugstarfseminnar í þjóðarframleiðslu landsmanna.
Síðan segir stýrihópurinn:
,,Erfitt er að gera beina tillögu um breytingar á kerfinu eins og það liggur nú fyrir til að tryggja jöfnun aðstöðu öðru vísi en að fara fram á takmarkaðar undanþágur frá þátttöku í kerfinu eða rýmri losunarheimildir fyrir Ísland umfram aðra. Eðlilegt er að reynt verði að ná fram niðurstöðu sem taki mið af því að framlag Íslands verði sanngjarnt á við aðrar þjóðir Evrópu og sé í samræmi við sérstakar aðstæður í flugstarfsemi á Íslandi.”