Heræfingin Norðurvíkingur sem hófst í fyrradag kostar íslenska skattgreiðendur fimmtíu milljónir. Á sama tíma og æfingin stendur yfir fer fram loftrýmiseftirlit bandaríska flughersins yfir landinu í nánu samstarfi við æfinguna. Kostnaður við loftrýmiseftirlitið er einnig fimmtíu milljónir og því er kostnaður íslenska ríkisins nú eitt hundrað milljónir. Loftrýmiseftirlit af þessu tagi fer fram fjórum sinnum á ári. Á fjárlögum er fimmtíu milljónum úthlutað fyrir hvert eftirlit.
Ríflega fjögur hundruð hermenn eru staddir hér á landi, flestir frá Bandaríkjunum, Kanada og Noregi eða um 300 hermenn. Auk þeirra eru hér á landi hermenn frá Ítalíu, Hollandi og Danmörku að sögn Urðar Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins.