Öllum börnum tryggð dagvistun

Krakkarnir á Steinahlíð hafa gaman af því að klifra í …
Krakkarnir á Steinahlíð hafa gaman af því að klifra í Töfratrénu

Átaksverkefninu Borgarbörnum verður hleypt af stokkunum í dag. Um er að ræða verkefni til fjögurra ára á vegum Reykjavíkurborgar en það felur í sér uppbyggingaráætlun og þjónustutryggingar og miðast við að árið 2012 geti öll börn eins árs og eldri fengið vistun hjá dagforeldrum eða í leikskólum. Gengið er út frá þeim forsendum að fæðingarorlofið verði á þessu tímabili lengt úr 9 mánuðum í 12 mánuði.

Ungbarnaskóli á teikniborðinu

Verkefnið miðar einnig að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og öruggrar vistunar en of fá úrræði þykja í boði að fæðingarorlofi loknu. Algengast er að leikskólar taki við börnum það ár sem þau verða tveggja ára gömul. Margir foreldrar bregða því á það ráð að leita til dagforeldra en eftirspurnin er mun meiri en framboðið.

Þar að auki hafa leikskólar glímt við manneklu undanfarin ár, þótt hún sé nokkru minni nú í ár en áður, og því ekki öruggt að barnið komist að jafnskjótt og foreldrar kjósa. Talið er að um 1.000 börn bíði nú eftir vistun hjá dagforeldrum eða í leikskólum.

Að sögn Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, formanns leikskólaráðs Reykjavíkurborgar, felst í uppbyggingaráætluninni að byggja nýja leikskóla, stækka þá sem fyrir eru auk þess að hækka greiðslur til sjálfstæðra leikskóla og dagforeldra.

Þá er í deiglunni að setja á laggirnar ungbarnaskóla fyrir börn á aldrinum 1-3 ára. Þeirri uppbyggingu verður hins vegar ekki að fullu lokið fyrr en eftir fjögur ár. Þangað til mun foreldrum barna er bíða eftir dagvistun bjóðast svokölluð þjónustutrygging sem er mánaðarleg greiðsla upp á 35.000 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert