Tuttugu verðandi mæður skrifa opið bréf til fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, í Morgunblaðinu í dag.
„Háttvirtur fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen.
Í ljósi yfirvofandi verkfalls ljósmæðra finnum við okkur knúnar til að senda ykkur ráðamönnum þjóðarinnar nokkrar línur og hvetja ykkur til að semja sem allra fyrst við ljósmæður svo ekki þurfi að koma til verkfalls.
Hversu oft stæra Íslendingar sig ekki af því að hafa eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum? Ástandið á fæðingardeildum um land allt er svo sannarlega ekki til fyrirmyndar þessa dagana.
Hversu langt þurfa ljósmæður að ganga og hversu miklum áhyggjum þarf að bæta á okkur barnshafandi konur sem eigum von á okkur á næstu dögum og vikum til að fá laun þessarar mikilvægu kvennastéttar leiðrétt? Það er nógu mikið fyrir okkur konur að hugsa um og hafa áhyggjur af, þótt ekki leggist svo á okkur áhyggjur af yfirvofandi verkfalli ljósmæðra að auki.
Þrátt fyrir áhyggjur okkar styðjum við ljósmæður í sinni baráttu alla leið.
Það er vitað að laun ljósmæðra eru með þeim lægstu innan BHM þótt nám þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er hjá háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum og er það til háborinnar skammar. Gott dæmi um það er dæmi sem Bára Hildur Jóhannsdóttir ljósmóðir bendir á í pistli sínum á vefsíðu Ljósmæðrafélags Íslands en þar tekur hún dæmi um ljósmóður sem leggur á sig sex ára háskólanám og hins vegar lögfræðing sem leggur á sig fimm ára háskólanám og að lögfræðingurinn skuli vera með rúmlega 30% hærri laun en ljósmóðirin, sem er með líf okkar kvenna og barna okkar í höndunum á hverjum degi.
Það er því að okkar mati gjörsamlega eðlileg krafa ljósmæðra að fá nám sitt og starf metið í samræmi við aðrar sambærilegar stéttir hjá ríkinu. Af hverju þurfa laun í umönnunarstéttum (í flestöllum tilfellum kvennastéttir) alltaf að vera til háborinnar skammar?
Eins og Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins, segir eru þær „að bjarga heilbrigðiskerfinu frá miklu stærri vanda síðar, það er manneklu í ljósmæðrastétt“.
Það er vitað mál að það verður erfitt að fá ljósmæður til starfa og hreinlega að fá fólk (konur) til að mennta sig sem slíkar þegar launin eru ekki í samræmi við lengd námsins. Það er örugglega ekki freistandi að leggja á sig sex ára háskólanám vitandi að maður eigi ekki eftir að geta lifað á þeim launum sem í boði eru.
„Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.“
Er ekki rétt að þetta standi orðrétt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar síðan í maí á sl. ári? Er það ekki nákvæmlega þetta sem ljósmæður eru að biðja ykkur um? Hvað varð um að efna þessi loforð ykkar?
Við biðjum ykkur því hér með um að endurmeta störf þessarar stéttar og borga ljósmæðrum í samræmi við nauðsyn þeirra og sýnið að þið berið virðingu fyrir störfum þeirra og ábyrgð þeirra við að koma börnunum okkar klakklaust í heiminn. Hvar værum við án þeirra?
Það þarf ekki að koma til verkfalls!
Margrét Jóna Ísólfsdóttir – settur dagur 1.9.
Erna Sif Ólafsdóttir – settur dagur 1.9. Anna Rósa Harðardóttir – settur dagur 2.9.
Erla Steinunn Árnadóttir – settur dagur 8.10.
Emilía Björg Óskarsdóttir – settur dagur 9.9.
Helga Hrönn Jónasdóttir – settur dagur 9.9.
María Jóhannsdóttir – settur dagur 11.9.
Dagný Ágústsdóttir – settur dagur 12.9. Iðunn E. Kristinsdóttir – settur dagur 14.9.
Lilja Björg Sigurjónsdóttir – settur dagur 14.9.
Brynja Garðarsdóttir – settur dagur 16. 9.
Arndís Pétursdóttir – settur dagur 18. 9.
Agnes Linda Þorgeirsdóttir – settur dagur 20. 9. Kristrún Helga Marinósdóttir – settur dagur 22. 9.
Líf Gunnlaugsdóttir – settur dagur 26. 9. Hrafnhildur Karla Jónsdóttir – settur dagur 4.10.
Olga Rannveig Bragadóttir – settur dagur 4.10.
Dýrleif Jónsdóttir – settur dagur 6. 10. Kristín Þóra Ólafsdóttir – settur dagur 17. 10.
María Fjóla Björnsdóttir – settur dagur 23. 10.