Áhugamenn um nýtingu orkuauðlinda hafa sett upp heimasíðu á slóðinni www.undirskrift.is í þeim tilgangi að skora á pólitískt kjörna fulltrúa að nýta orkuauðlindir þjóðarinnar, að því er segir í tilkynningu.
Á heimasíðunni www.undirskrift.is má finna eftirfarandi texta undir yfirskriftinni: „Áskorun um nýtingu orkuauðlinda Íslands“.
„Við undirrituð skorum á kjörna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi og í sveitarfélögum að standa vörð um lífskjör landsmanna og skynsamlega nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Nýting auðlindanna er lykillinn að áframhaldandi velsæld, leiðin að fjölbreyttara atvinnulífi og framtíðarstoð öflugs efnahags.“
Fram kemur að heimasíðan verði virk næstu tvær til þrjár vikurnar og að því loknu verði forsætisráðherra og formanni sambands íslenskra sveitarfélaga afhent áskorunin.
„Það er okkar von að þetta átak verði til þess að auka heilbrigða umræðu um nýtingu orkulinda og mikilvægi orkunnar fyrir Ísland á innlendri og erlendri grundu,“ segir í tilkynningunni.