Ríkisstjórnin styður álver á Bakka, að því er fram kom í máli Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, á Alþingi áðan. Össur lagði jafnframt áherslu á að ríkisstjórnin myndi halda áfram að byggja upp íslenskt atvinnulíf með því að nýta auðlindir Íslands af varúð og um leið umhyggju gagnvart náttúrunni sjálfri. „Það er leiðarstefið í því sem við erum að gera,“ sagði Össur.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, var málshefjandi í utandagskrárumræðunni og vildi fá skýr svör um hver væri stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum frá pólitískum, efnahagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum. Steingrímur rifjaði upp stefnu Samfylkingarinnar um Fagra Ísland og vildi vita hvort einhver breyting hefði orðið á stefnu fyrri ríkisstjórnar og þeim stóriðjuáformum sem þá lá fyrir. Sagði hann svo virðast sem öll fyrri stóriðjuáform stæðu enn og spurði sérstaklega um Bitruvirkjun, mögulegt eignarnám við Þjórsá og hvort til standi að virkja vötnin sem falla til Jökulsár á fjöllum.
Össur sagði ekki standa til að virkja nein vötn sem falla til Jökulsár heldur ætti vatnasvið hennar að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þá sagðist hann lítið geta sagt um hvað Reykjavíkurborg hygðist fyrir með Bitruvirkjun.
Össur sagði Steingrím líka greinilega hafa skipt mjög um skoðun enda hefði hann oft á sínum fyrri árum talað fyrir virkjunum og stóriðju.