BSRB segist í umsögn um frumvarp um sjúkratryggingar, vara alvarlega við því að frumvarpið verði afgreitt sem lög óbreytt. Segir bandalagið m.a. að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir mjög rúmum heimildum ráðherra til þess að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna eftir eigin höfði.
Í umsögninni segir að síðastliðið vor hafi BSRB mótmælt því að frumvarpið yrði afgreitt frá Alþingi með þeim hraða sem ætlun stóð til. Í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að stigin verði skref í átt til markaðsvæðingar heilbrigðisþjónustunnar. Áhersla sé á kaup og sölu og að fram geti farið útboð á einstökum þáttum þjónustunnar.
Þannig sé Sjúkratryggingastofnun, samkvæmt 40. grein frumvarpsins ætlað að gera samninga „í samræmi við stefnumörkun skv. 2. grein frumvarpsins, m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni og gæði þjónustrunnar og aðgengi að henni."
Í 2. greininni sé einmitt áhersla lögð á vald ráðherra til að framfylgja stefnu sinni „hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu". Segir BSRB, að opnar heimildir af þessu tagi til einstakra ráðherra séu varasamar eins og reynslan frá Bretlandi sýni.
Þá hvetur BSRB til ítarlegrar og upplýsandi umfjöllunar um frumvarpið en varar eindregið við því að rasað verði um ráð fram og það lögfest á næstu dögum án nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu.