Verði tveggja sólarhringa verkfall ljósmæðra að veruleika á miðnætti skerðist þjónusta þeirra mjög mikið og sums staðar verður hún engin. „Samkvæmt neyðaráætlun ríkisins verður engin þjónusta við konur í barnseignarferli á þessu tímabili. Mæðravernd fellur niður, þjónusta ungbarnaverndar verður skert og fæðingardeild lokuð,“ segir til dæmis á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Í verkfalli starfa ljósmæður samkvæmt undanþágulistum, sem miða við þjónustu sem veitt var fyrir 13 árum.
Fæðingarstaðir eru 10 á landinu og sá stærsti á Landspítalanum. Fram hefur komið hjá stjórnendum spítalans að þjónusta verði með óbreyttum hætti á fæðingar- og sængurlegudeild.
Í verkfalli verður neyðarmönnun á flestum staðanna. Í henni felst fæðingarþjónusta en ekki önnur þjónusta sem ljósmæður annars veita.
Á Akranesi verður ein ljósmóðir á hverri vakt á undanþágu. Í Vestmannaeyjum verður ein ljósmóðir á bakvakt. Ein ljósmóðir verður á neyðarvakt á Ísafirði, ein ljósmóðir á vakt og önnur á bakvakt á Akureyri, engin neyðarvakt verður á Egilsstöðum, ein ljósmóðir verður á neyðarvakt í Neskaupstað, ein á Sauðárkróki, engin í Siglufirði og engin á heilsugæslustöðvum víðs vegar um landið. Verkfallið hefur ekki áhrif á Höfn í Hornafirði þar sem ljósmóðirin fær greitt frá sveitarfélaginu en ekki ríkinu.