170.000 milljarðar að veði

Olíuvinnslan á Drekasvæðinu færi fram á miklu dýpi.
Olíuvinnslan á Drekasvæðinu færi fram á miklu dýpi. Øyvind Hagen/StatoilHydro

Heildarverðmæti áætlaðra olíu- gasbirgða á Drekasvæðinu norðaustur af Íslandi er um 170.000 milljarðar króna, að mati Terje Hagevang, sérfræðings hjá Sagex Petroleum. Reynist þetta rétt er um mun meira verðmæti að ræða en sem nemur vergri landsframleiðslu á Íslandi síðustu hundrað árin, en hún var áætluð um 913 milljarðar króna árið 2007, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands, eftir mesta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar.

Hagevang, sem hefur sér jarðfræði Jan Mayen-svæðisins í þaula, situr þing um Drekasvæðið í Reykjavík í dag.

Að sögn Hagevang er talið að á svæðinu sé að finna ígildi 20 milljarða tunna af olíu, þegar olíu- og gasmagnið er lagt saman. Miðað við að heimsmarkaðsverð á olíu sé 100 dalir er verðmæti þessa magns um 2.000 milljarðar Bandaríkjadala, ígildi um 170.000 milljarða króna á núverandi gengi.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur sveiflast töluvert undanfarna daga og var upp úr hádegi í dag nærri 110 dölum á mörkuðum í New York. Verðmæti olíunnar getur því sveiflast um þúsundir milljarða króna dag frá degi. Og ef þær spár sem Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra vitnaði til í erindi sínu á þinginu í morgun rætast gæti verðmætið aukist verulega, jafnvel um tugi prósenta, á næstu áratugum.

Tekið skal fram að þetta er mjög gróft mat og í ljósi óvissunnar á olíumörkuðum er ekkert hægt að fullyrða um verðmæti lindanna á Drekasvæðinu á þessari stundu. Hitt liggur fyrir að himinhátt olíuverð þýðir að vinnslan er hagkvæm, á sama tíma og selja þarf olíuna á nokkuð háu verði til að ná fram viðundandi arðsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka