Birt án samþykkis ráðuneytis

Forsætisráðuneytið harmar að Breiðuvíkursamtökin skuli hafa valið þá leið að kynna fyrirliggjandi drög að frumvarpi, sem er á þessu stigi vinnuskjal í ráðuneytinu, opinberlega í fjölmiðlum án þess að leita samþykkis eða samráðs um slíkt.

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um hugsanlegar bætur til fyrrverandi vistmanna á Breiðavíkurheimilinu vill forsætisráðuneytið taka eftirfarandi fram:

„Sérstök nefnd, sem stofnað var til samkvæmt lögum nr. 26/2007, skilaði skýrslu um starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952 -79 á síðasta vetri. Í framhaldi af því ákvað ríkisstjórnin, þrátt fyrir að engin lagaskylda standi til þess, að fela Viðari Má Matthíassyni prófessor, sem er einn helsti sérfræðingur hér á landi á sviði skaðabótaréttar, að semja frumvarp um svokallaðar sanngirnisbætur vegna misgjörða við vistun á opinberum stofnunum eins og Breiðavíkurheimilinu.

Í frumvarpsdrögunum er í samræmi við þau sjónarmið sem forsætisráðherra kynnti á Alþingi 31. mars 2008 leitast við að setja fram reglur sem tryggi að þeir, sem orðið hafa fyrir varanlegu tjóni vegna vistunar á stofnunum er falla undir l. nr. 26/2007, hljóti sanngjarnar bætur í samræmi við bótafjárhæðir á öðrum skyldum sviðum íslensks réttar og réttarframkvæmdar. Drög að þessu frumvarpi hafa verið til meðferðar í forsætisráðuneytinu frá því á sl. vori, en hafa ekki verið lögð fyrir ríkisstjórn né þingflokka hennar og þarafleiðandi ekki heldur fyrir Alþingi.

Að ósk forsvarsmanna Breiðavíkursamtakanna voru þeim og lögmanni þeirra kynnt þessi drög í trúnaði 11. ágúst sl. Athugasemdir Breiðavíkursamtakanna bárust ráðuneytinu fyrir nokkru og er verið er að fara yfir þær en ljóst er að hugmyndir þeirra um bótafjárhæðir eru fjarri því sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Forsætisráðuneytið harmar að Breiðuvíkursamtökin skuli hafa valið þá leið að kynna fyrirliggjandi drög að frumvarpi, sem er á þessu stigi vinnuskjal í ráðuneytinu, opinberlega í fjölmiðlum án þess að leita samþykkis eða samráðs um slíkt," að því er segir í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert