Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir í svari við fyrirspurn í borgarráði um laxveiðiferð fyrrverandi borgarstóra í Miðfjarðará á síðasta ári, að ekki hafi verið brotið gegn reglum Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúar Samfylkingar og VG lögðu í síðustu viku fram fyrirspurn um hvort borgarstjóri hafi látið kanna málavexti þess, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, og Björn Ingi Hrafnsson, þáverandi borgarfulltrúi, hafi fyrir ári þegið veiðiferð í Miðfjarðará en af fréttum fjölmiðla megi ráða, að áin hafi á þeim tíma verið leigð af fyrirtækinu Baugi og fulltrúar þess fyrirtækis hafi einnig verið viðstaddir.
Í svari Hönnu Birnu segir, að samkvæmt innkaupareglum Reykjavíkurborgar sé starfsmönnum borgarinnar og fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum hennar óheimilt að þiggja boðsferðir, sem tengjast viðskiptum við Reykjavíkurborg nema með sérstakri heimild borgarstjóra hverju sinni. Samskonar ákvæði sé í innkaupareglum Orkuveitu Reykjavíkur.
„Fram hefur komið í máli þáverandi borgarstjóra Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að ferðin hafi ekki verið farin í boði fyrirtækis, hún hafi verið farin í boði vinar og félaga til áratuga og að honum hafi verið ókunnugt um aðkomu tilvitnaðs fyrirtækis að Miðfjarðará. Miðað við þau svör má ljóst vera að þáverandi borgarstjóri braut ekki gegn reglum Reykjavíkurborgar.