Austurland nyti góðs af olíuleit

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. mbl.is/Dagur

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra bauð í morgun erlend olíufyrirtæki velkomin til samstarfs við Íslendinga um olíuleit á Drekasvæðinu, norðaustur af landinu, þegar hann setti fjölsótta ráðstefnu um möguleika svæðisins í Reykjavík. Komst Össur svo að orði að fjármálaráðherrann, Árni Mathiesen, myndi gleðjast með honum færi svo að olíuvinnsla hæfist á Drekasvæðinu.

Austurland myndi að hans sögn njóta góðs af olíuleit og hugsanlegri olíuvinnslu á Drekasvæðinu, þar sem olíuvinnsla hafi áður verið talin of dýr og tæknilega flókin. Olíuvinnsla Íslendinga á svæðinu væri mikilvægur liður í að tryggja öryggi þjóðarinnar, nú þegar ýmis ríki gerðu tilkall til olíulindanna á norðurskautinu. 

Til að setja mikilvægi norðurskautsins í samhengi telur Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna að þar kunni að leynast allt að 90 milljarðar tunna, eða sem nemur heimsnotkuninni í 34 mánuði, miðað við núverandi notkun.

Össur vék einnig að reynslu Íslendinga af jarðborunum í tengslum við virkjun jarðhitans og sagði þá myndu taka opnum örmum við sérfræðiþekkingu erlendra aðila í olíuborun. Það skref að kanna fýsileika olíuvinnslu á Drekasvæðinu væri sögulegt, en jafnframt hugsanlega afar arðvænlegt í ljósi jafnvel enn hærra olíuverðs í framtíðinni.

Eins og kunnugt er má vinna ýmsa hluti úr olíunni, sem í reynd er undirstaða mikils efnaiðnaðar, og vitnaði Össur til þeirra orða kollega síns í Katar að svarta gullið, eins og olían er stundum nefnd, væri of dýrmæt til að brenna hana í sprengihreyfli. George W. Bush Bandaríkjaforseti hefði tekið undir þessi orð, en stjórn hans undirbýr nú einmitt vinnslu olíu í áður ónýttum lindum á norðurslóðum. 

Á annan tug sérfræðinga taka til máls á ráðstefnunni sem lýkur í kvöld með móttöku iðnaðarráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert