Harma framgöngu forsætisráðuneytisins

Breiðavík.
Breiðavík. mbl.is/Ómar

Breiðavíkursamtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem m.a. kemur fram að lögmaður forsætisráðuneytisins hafi sagt að frumvarpsdrögin um bætur hafi verið kynnt ríkisstjórninni og samþykkt þar. Yfirlýsing ráðuneytisins sé nú í andstöðu við svar lögmannsins. Samtökin harma framgöngu ráðuneytisins.

Yfirlýsingin, sem er undirrituð af stjórn samtakanna, er svohljóðandi:

„1. Á fundi með stjórnarmönnum Breiðavíkursamtakanna (BRV) og lögmanni þeirra Ragnari Aðalsteinssyni þann 11. ágúst sl. sagði Páll Þórhallsson lögfræðingur forsætisráðuneytisins aðspurður að frumvarpsdrögin um bætur hefðu verið kynnt í ríkisstjórninni og samþykkt þar. Yfirlýsing ráðuneytisins nú er í andstöðu við þetta ótvíræða svar Páls Þórhallssonar.
 
2. Á sama fundi 11. ágúst sl. var beðið um trúnað í tvær vikur og það var að fullu virt og rúmlega það.
 
3. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur BRV var boðaður á fund í ráðuneytinu föstudaginn 29. ágúst. Greinilegt var af þeim fundi að dæma að málinu hafði verið haldið í sama farvegi og á fundinum 11. ágúst; engu hafði verið hnikað til þótt samtökin hefðu gert alvarlegar athugasemdir við drögin strax á fundinum 11. ágúst og með ítarlegu bréfi þann 15. ágúst.
 
4. Við svo búið sáu BRV ekkert því til fyrirstöðu að efna til félagsfundar 3. september og taka þátt í opinberri umræðu um málið og þróun þess.
 
5. BRV geta ekki annað en harmað framgöngu forsætisráðuneytisins í þessu máli og hvetja forsætisráðherra til að koma böndum á framgöngu sinna manna. BRV hafa engan áhuga á því að munnhöggvast við ráðuneytið um atriði sem ekki lúta að kjarna málsins. Hann felst ekki síst í brotum stjórnvalda gagnvart börnunum og foreldrum þeirra, í því líkamslega og andlega harðræði sem þessi börn bjuggu við, í þeirri vinnuþrælkun sem þessum börnum var boðið upp á, í þeirri vanrækslu sem átti sér stað á lögbundinni skólaskyldu, í sviptingunni á friðhelgi einkalífsins og í hinni sáru einangrun og aðskilnaði frá vinum og venslamönnum sem börnin þurftu að þola. Af öllu þessu er ljóst að hin ömurlega nauðungarvist hefur rýrt verulega tækifæri og getu viðkomandi einstaklinga til að lifa eðlilegu, mannsæmandi lífi og fóta sig í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka