Starfsstöð Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur verið opnuð á Flateyri og er starfsemin komin vel á veg. „Það er mjög gleðilegt að starfsemin sé komin af stað og búið að ráða starfsfólk þótt það hafi tekið aðeins lengri tíma en við ætluðum. Almenn ánægja er innan stofnunarinnar með opnun starfstöðvarinnar“, segir Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
Ákveðið var sl. vetur, að flytja nokkur störf Innheimtustofnunarinnar vestur á
firði og varð Flateyri fyrir valinu. Nú hafa verið ráðnir þrír
starfsmenn og að sögn Sigurðar er markmiðið að fjölga störfum í sex
þegar á næsta ári. Starfsemin hófst í ágúst en fór á fullt skrið 1.
september.
Innheimtustofnun sveitarfélaga tók til starfa í
ársbyrjun 1972 en hlutverk stofnunarinnar er að innheimta hjá
meðlagsgreiðendum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins og umboð hennar
hafa greitt þeim sem hafa börn á framfæri samkvæmt skilnaðarleyfum,
skjölum er varða slit á óvígðri sambúð, dómum og fleiri heimildum.
Þá annast Innheimtustofnun, að beiðni ráðuneyta, innheimtu meðlagsskulda erlendra ríkisborgara, búsettra hér á landi og meðlög sem greidd eru erlendis vegna íslenskra ríkisborgara.