Á aðalfundi Útvegsmannafélags Vestfjarða í dag var samþykkt ályktun þar sem lögð er áhersla á að hvalveiðum í atvinnuskyni verði haldið áfram, bæði á hrefnu og langreyði.
„Hvorki stofnar hrefnu né langreyðar eru í útrýmingarhættu og sjálfbærar veiðar í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar munu ekki ganga um of á þessa stofna að mati vísindanefndar Alþjóða hvalveiðiráðsins. Ráðið sjálft hefur ennfremur úrskurðað að hvalveiðar Íslendinga séu fyllilega löglegar.
Til að framhald geti orðið á veiðum á langreyði í atvinnuskyni þarf að tryggja að útflutningur á hvalkjöti til Japan verði að veruleika, en engar alþjóðlegar reglur eða lög banna þau viðskipti," segir m.a. í ályktuninni.