Mikið álag á starfsfólki

Nýfæddir Íslendingar á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans.
Nýfæddir Íslendingar á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans. mbl.is/Kristinn

Níu börn hafa komið í heiminn á fæðingardeild Landspítalans í dag og að sögn vakthafandi læknis hafa fæðingarnar gengið vel fyrir sig þrátt fyrir að það hafi verið mikið álag á starfsfólki. Tveggja sólarhringa verkfall ljósmæðra hófst á miðnætti í nótt.

Sáttafundi samninganefnda Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðuneytisins var slitið í Karphúsinu í dag. Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins, sagði í dag að staðan væri enn stál í stál.

Annað tveggja sólarhringa verkfall hefur verið boðað 11. og 12. september hafi ekki samist fyrir þann tíma. 

Verkfallinu fylgir óhjákvæmilega óþægindi fyrir skjólstæðingana, ekki síst þar sem Hreiðrið er lokað, en að sögn læknis á LSH hefur þó ekki enn komið til þess að konur þurfi að víkja óvenjusnemma úr rúmi til að hleypa öðrum að.

Um 3.000 börn fæðast á Landspítalanum á hverju ári, sem gerir um átta fæðingar á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka