Reykjavíkurborg og samgönguráðuneytið eru í sameiningu að láta endurskoða athuganir á hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkur og léttlestarkerfis á höfuðborgarsvæðinu.
Ferlinu hefur verið skipt upp í þrjá áfanga og mun hvor aðilinn um sig leggja fram tvær milljónir króna í fyrsta áfangann sem snýst um að uppfæra fyrri hagkvæmnisathuganir sem hafa verið gerðar í þessum málum. Til þess hefur verið fenginn breskur ráðgjafi, Edwin Marks, sem kom að fyrri athugunum á lestarsamgöngum sem hafa verið gerðar hérlendis.
Stefnt er að því að niðurstöður hans liggi fyrir síðar í september og verður þá tekin ákvörðun um hvort unnin verði enn ítarlegri hagkvæmnisathugun. Hún myndi kosta allt að tíu milljónir króna.