Segir að olía verði takmörkuð og eftirsótt auðlind

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. mbl.is/Golli

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í ávarpi sínu við opnun ráðstefnu um kolvetnaleit við Ísland, Iceland Exploration Conference 2008, að það væri trú sín að olía yrði í framtíðinni takmörkuð og eftirsótt auðlind á enn hærra verði en nú þekkist.
 
Ráðherra sagði ennfremur í ræðu sinni að hugsanleg olíuvinnsla á Drekasvæðinu í jaðri íslensku efnahagslögsögunnar snerist fyrst og fremst um að Íslendingar nýttu lögvarið tilkall til hugsanlegra auðlinda með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, að því er segir í tilkynningu.

Michael Larsen frá DONG Energy í Danmörku sagði í erindi sínu ýmislegt benda til þess að margvísleg líkindi væru með jarðfræði á Jan Mayen-hryggnum og svæðunum austan hans og vestan með tilliti til myndunar og geymslu kolvetna. Jørgen A Bojesen frá Jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands, tók í sama streng í erindi þar sem hann skýrði frá rannsóknum á jarðfræði móðurbergs Grænlands og hvaða ályktanir mætti draga af þeim fyrir Jan Mayen-hrygginn.
 
Harald Brekke frá norska olíumálaráðuneytinu sagði líkurnar á olíufundi á Drekasvæðinu vissulega fyrir hendi, einungis væri spurning um hvar innan þess og í hve miklu magni. Terje Hagevang frá Sagex Petroleum sagðist hafa mikla trú á svæðinu til olíuleitar og að væntanlega yrði vesturhluti svæðisins fyrst kannaður.
 
Á annað hundrað þátttakendur, um helmingur erlendis frá, sat ráðstefnuna á Hilton Nordica Hótel við Suðurlandsbraut í dag. Stefnt er að því að bjóða út sérleyfi til olíuleitar á Drekasvæðinu í janúar á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka