Framkvæmdir við Óshlíðargöng á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals hófust formlega í dag þegar Kristján L. Möller samgönguráðherra sprengdi fyrir göngunum í fyrsta sinn kl. 17:30 Bolungarvíkurmegin.
Undirbúningsvinna hefur staðið yfir í sumar. M.a. hefur verið unnið að forskeringum en í því felst að komast að stafninum þar sem jarðgöngin eiga að byrja. Áætlað er að verkinu ljúki um miðjan júlí árið 2010 en um 50 manns verða að störfum við gangagerðina, að sögn Rúnars Ágústs Jónssonar, verkefnastjóra hjá Ósafli, sem hefur veg og vanda af framkvæmdunum.
Vinnan við hinn enda ganganna hefst í næstu viku.