Vafi um kjörgengi varafulltrúa Framsóknarflokks í borgarráði

Guðlaugur G. Sverrisson.
Guðlaugur G. Sverrisson.

Vafamál er að Guðaugur G. Sverrisson, varafulltrúi Framsóknarflokksins sé kjörgengur til borgarráðs. Þetta kemur fram svari skrifstofustjóra borgarstjórnar, sem lagt var fram á fundi borgarráðs í dag.

Skrifstofustjórinn segir, að hann telji óljóst hvort gerð séu strangari kjörgengisskilyrði í borgarráði en í aðrar nefndir og ráð borgarinnar og telur að skýrar þurfi að kveða upp úr með þau í samþykktum. Jafnframt telur hann að færa megi rök að því að varamaður í borgarráði þurfi að minnsta kosti að vera varaborgarfulltrúi.

Gunnlaugur sat í morgun hluta fundar borgarráðs sem varamaður Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokks en hann er jafnframt formaður stjórnar Orkuveitunnar. Guðlaugur skipaði 14. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Í bókun, sem fulltrúar Samfylkingar og VG lögðu fram, segir að borgarráð sé framkvæmdastjórn Reykjavíkurborgar þar sem haldnir eru fundir vikulega um meginmál í rekstri og stefnumótun borgarinnar. Þar eigi samkvæmt sveitarstjórnarlögum sæti kjörnir fulltrúar enda brýnt að þeir sem þar sitji hafi ríkt umboð frá kjósendum og almenningi.

„Það er sannarlega ekki til þess fallið að auka virðingu borgarstjórnar að meirihlutinn láti það óátalið að umræddur varamaður sitji við borð framkvæmdastjórnar borgarinnar þrátt fyrir fyrirliggjandi efasemdir.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks létu bóka, að eins og komi fram í umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar leiki enginn vafi á því að viðkomandi fulltrúi uppfylli almenn kjörgengisskilyrði í nefndir og ráð borgarinnar. Á meðan ekki sé kveðið með skýrum hætti á um strangari kjörgengisskilyrði varamanna í borgarráði, hljóta hin almennu skilyrði að gilda. Að öðru leyti verði þessi umræða um samþykktir borgarinnar tekin upp á vettvangi forsætisnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert