Verkfall ljósmæðra hafið

Sérstök undanþágunefnd, sem í sitja fulltrúar ríkisins og ljósmæðra, fundaði …
Sérstök undanþágunefnd, sem í sitja fulltrúar ríkisins og ljósmæðra, fundaði í gærkvöldi um vaktir í verkfallinu.

„Fæðingardeild verður opin og þar verða ljósmæður á vakt,“ segir Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi [LSH]. Tveggja sólarhringa verkfall ljósmæðra hófst á miðnætt. Samningafundur verður haldinn hjá ríkissáttasemjara í dag kl. 10.

Verkfallið hefur það í för með sér að Hreiðrinu svokallaða, sem er fæðingar- og skammtíma sængurlegudeild á kvennasviði LSH, verður lokað. Konur í eðlilegu fæðingarferli hafa getað fætt og dvalið í Hreiðrinu ásamt maka sínum eða öðrum stuðningsaðila. Í verkfallinu verður engin slík þjónusta í boði. „Þótt þetta verði ekki í sömu umbúðum og áður verður þetta leyst því okkar helstu skyldur eru við sjúklingana,“ segir Björn Zoëga, staðgengill forstjóra LSH.

Skert þjónusta í mæðravernd
„Þjónustan er fyrst og fremst skert í mæðraverndinni,“ segir Anna. Mæðraverndin er eftirlit með verðandi mæðrum. „Þjónustan við fæðandi konur verður með örlítið öðrum hætti en venjulega, þannig að þær hafa minna val, en öllum fæðandi konum verður sinnt,“ bætir Anna við.

Hún segir að spítalinn muni búa svo um hnútana að sem minnst skerðing verði á þjónustu fyrir fæðandi konur. „Við munum taka á móti þeim konum sem til okkar leita, eins og við gerum allan ársins hring.“ Meðgöngudeildin á LSH, sem er hluti af mæðravernd, er lokuð í verkfallinu.

LSH hafði farið þess á leit við undanþágunefnd að Hreiðrið yrði áfram opið en það var niðurstaða fundar undanþágunefndar að fallast ekki á bón spítalans, en hins vegar fékkst ljósmóðir á bakvakt í Hreiðrið.

„Við erum einstaklega óánægð með að til verkfallsins hafi þurft að koma,“ segir Líf Gunnlaugsdóttir, verðandi móðir, en hún á von á sér í seinni hluta september. „Það er óþægilegt að missa það öryggi sem felst í því að hafa ljósmóðurina til taks á heilsugæslunni síðustu vikurnar á meðgöngunni,“ segir Líf.

Landlæknir mun hafa eftirlit með faglegum þáttum fæðingarþjónustunnar í verkfallinu en embættið hefur verið í nánu sambandi við stofnanir á undanförnum vikum og dögum svo og fagfélag ljósmæðra.
 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert