Þegar framkvæmdir við Óshlíðargöng á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals hófust formlega í gær með sprengingu Bolungarvíkurmegin vakti athygli, að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar var ekki viðstödd.
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að bæjarstjórnin hafi verið vant við látin á bæjarstjórnarfundi og ekki hefði verið hægt að fresta honum með svo stuttum fyrirvara, en tilkynning um viðburðinn í Bolungarvík barst með tveggja daga fyrirvara.
„Bæjarstjórnarfundur var ákveðinn á síðasta fundi í júní, þannig að það lá fyrir hvenær hann yrði með góðum fyrirvara en ekki sprengingin,“ segir Halldór. „Við létum strax vita þegar tilkynningin barst okkur að við gætum ekki verið viðstödd þessa athöfn og var lesin upp orðsending frá okkur við athöfnina sem skýrði frá þessu. Það hefði verið hægt að færa fundinn undir venjulegum kringumstæðum en ekki í þetta skipti því fjórðungsþing á Reykhólum var daginn eftir“ segir Halldór.