Eldur í verkstæði Ístaks á Grænlandi

Frá framkvæmdum við virkjun Ístaks á Grænlandi.
Frá framkvæmdum við virkjun Ístaks á Grænlandi.

Verkstæði og geymsluhúsnæði Ístaks í Öðrum firði norðan við Sisimiut á vesturströnd Grænlands gjöreyðilagðist í eldsvoða í nótt, en þar er fyrirtækið að byggja vatnsaflsvirkjun.

Loftur Árnason, framkvæmdastjóri Ístaks, segir í samtali við mbl.is að verkstæðisbyggingin og allt sem í henni var, m.a. áhöld, vélar, lager og þrjár stórar rafstöðvar, sé gjörónýtt eftir brunann. Hann segir tjónið hlaupa á tugum milljóna króna. Eldsupptök eru ókunn.

Aðspurður sagði Loftur engan starfsmann hafa verið í hættu. Hann sagði að maður, sem var á ferðinni um svæðið á sjötta tímanum í morgun, hefði fyrst orðið eldsins var. Þá skíðlogaði í byggingunni, sem er um 400 fermetrar að stærð, og var ekki við neitt ráðið. Svæðið er afskekkt og langt í næsta slökkvilið.

„Aðalmálið er hjá okkur að koma þessu upp aftur því við erum alveg handalausir þegar þetta er farið,“ segir Loftur. Unnið sé að því að koma öðrum búnaði og tækjum út aftur til Grænlands. „Þetta er meiriháttar mál að koma þessu upp aftur, því þetta er eyðifjörður.“

Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós hvaða þýðingu þetta hafi fyrir Ístak. Eldsvoðinn stöðvi vinnuna á staðnum í einhvern tíma en hve lengi sé ekki vitað.

Ístak sér um að reisa virkjunina og mun síðan reka hana í fimm ár. Unnið hefur verið að aðrennslisjarðgöngum, jarðgöngum fyrir stöðvarhúsbyggingu auk uppsetningar vél- og rafbúnaðar frá virkjuninni að bænum Sisimiut, sem er næst stærsti bær Grænlands með um 5000 íbúa. Framkvæmdir hófust vorið 2007. Um 80 manns eru nú að störfum á vegum Ístaks á Grænlandi.  

Grænlenski fréttavefurinn sermitsiaq.gl segir, að eldurinn hafi verið það magnaður að ekki var hægt að fara eftir björgunaráætlun, sem gerir ráð fyrir að gaskútar og annað sem sprengihætta stafar, séu flutt út úr húsnæðinu.

Haft er eftir Guðmundi Þórðarsyni, verkefnisstjóra á svæðinu, að það hefði verið lífshættulegt að senda fólk inn í bygginguna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert