Fyrsta skóflustunga tekin að læknaminjasafni

Fyrsta skóflustungan tekin að húsi lækningaminjasafnsins.
Fyrsta skóflustungan tekin að húsi lækningaminjasafnsins.

Fyrsta skóflustungan var í morgun tekið að byggingu Lækningaminjasafns Íslands, sem á að rísa á safnasvæði Seltjarnarness við Nesstofu. Gert er ráð fyrir að safnhúsið, sem að auki mun nýtast undir aðra menningartengda starfsemi Seltjarnarnesbæjar, verði risið árið 2010. Ráðgert er að Nesstofa sem var reist á árunum 1761-1763 sem aðsetur Bjarna Pálssonar landlæknis verði hluti Lækningaminjasafns Íslands.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri,  Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,  menntamálaráðherra,  Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands og Anna K. Jóhannsdóttir ritari Læknafélags Reykjavíkur tóku fyrstu skóflustunguna.

Bygging og rekstur Lækningaminjasafns Íslands er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar, menntamálaráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands, Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands. Seltjarnarnesbær sér alfarið um og ber ábyrgð á byggingu safnhússins sem mun verða um 1600 fermetrar að stærð. Ásdís Helga Ágústsdóttir og Sólveig Berg hjá Yrki arkitektum ehf. hlutu fyrstu verðlaun fyrir hönnun safnhússins í opinni hönnunarsamkeppni sem fór fram árið 1997. Hönnun burðarvirkis, frárennslis-, hreinlætis- og hitalagna er á höndum VSB verkfræðistofu.

Kostnaður við bygginguna er áætlaður 393 milljónir að frátöldum kostnaði við lóð og skiptist milli samstarfsaðilanna. Seltjarnarnes leggur til 110 milljónir auk lóðar og Læknafélögin leggja  til 25 milljónir hvort. Menntamálaráðuneytið greiðir 75 milljónir. Þá rennur söluandvirði fasteignarinnar Bygggarðar 7 á Seltjarnarnesi í framkvæmdina, en fasteignin var keypt fyrir erfðafé Jóns Steffensen, prófessors emeritus, sem arfleiddi Læknafélag Íslands að tilteknum eignum í erfðaskrá sinni. Læknafélagið færði síðar Þjóðminjasafninu arfinn  til umsjónar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert