Gripnir í Baulu eftir fjársvikaferð

Þrír rúmenskir karlmenn voru í gær úrskurðaðir í tveggja vikna farbann vegna kæra um peningasvindl í verslunum og bönkum. Mennirnir komu til landsins á mánudagskvöld með flugi frá London, að því er virðist í þeim tilgangi einum að svíkja út peninga. Mennirnir voru eftirlýstir og að auki hafði lögreglan sent afgreiðslufólki ábendingar um þá.

„Strax og við fengum fyrstu tilkynningu grunaði okkur hvers kyns var,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík. Rúmenarnir hófust handa strax að morgni þriðjudags. Þeir beittu m.a. blekkingum í verslunarmiðstöð í Reykjavík til að ná peningum frá starfsfólki. Þeir fóru sömuleiðis á Suðurnesin, meðal annars í banka.

Á miðvikudag lá leiðin norður í land með viðkomu á Akranesi og í Borgarnesi. Starfsfólk pósthússins í Borgarnesi sem fengið hafði ábendingar lögreglunnar bar kennsl á svikarana og gerði lögreglu viðvart.

Þeir stoppuðu í Baulu og pöntuðu sér lambakótelettur. Í þann mund sem Rúmenarnir voru að renna niður síðustu bitunum komu lögreglumenn frá Borgarnesi og handtóku þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert