Íbúar hræðast aukna umferð

Áttfalda þyrfti Reykjanesbraut ef skipulagshugmyndir um 168 þúsund fermetra byggð á Glaðheimasvæðinu verða að veruleika, segir Guðríður Arnardóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Íbúasamtök í Lindahverfi sem stofnuð voru í gærkvöldi til að standa vörð um hagsmuni íbúa vegna fyrirhugaðra stórhýsa, eru þriðju íbúasamtökin sem eru stofnuð í bænum á stuttum tíma vegna óánægju með skipulagsmál. Íbúar eru hræddir við aukna umferð og mengun.  Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að þegar hefur verið samþykkt að byggja turn við Bæjarlind 10 uppá 10 til 12 hæðir, annar er í kynningu upp á 9 hæðir við Skógalind. Á Glaðheimasvæðinu er áformað að reisa 158 þúsund fermetra byggð, meðal annars eru uppi hugmyndir um 3 til 4 turna sem eru jafnvel yfir 30 hæðir auk stórra íbúðabygginga.

Ármann KR. Ólafsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og íbúi í Lindahverfi segir að umferðarkerfið beri nýja byggð í Glaðheimum þegar mislæg gatnamót á Arnarneshæð verða tilbúin en verkið er hálfnað. Aukinni umferð vegna nýrra bygginga í Lindarhverfi verði auk þess beint frá hverfinu með nýjum umferðarmannvirkjum. Guðríður Arnardóttir bæjarfulltrúi Samfylkingingarinnar segir að þær skýrslur sem liggi fyrir sýni að umferðarástand verði óviðunandi með öllu, nema Reykjanesbraut verði fjórar akreinar í hvora átt, og sex akgreinar í hvora átt á litlum kafla fyrir ofan Dalveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka