Stystu, raunhæfu jarðgöng undir Dynjandisheiði yrðu líklega um 12 km löng og heildarkostnaður yrði yfir 14 milljarðar, ef ráðist yrði í slíka framkvæmd. Þetta kemur fram í skýrslu um hugmyndir um jarðgangaleiðir og vegtengingar um Dynjandisheiði sem birt hefur verið í tengslum við Fjórðungsþing Fjórðungssambands Vestfirðinga sem hefst í dag.
Þar kemur fram að það er mat Vegagerðarinnar að unnt sé að byggja heilsársveg yfir Dynjandisheiði, og við það hefur verið miðað í langtímaáætlunum. Áætlaður kostnaður er um 4 milljarðar. Vegurinn yrði þó með erfiðari fjallvegum landsins, í flokki með t.d. Steingrímsfjarðarheiði og Öxnadalsheiði.
Vegurinn sem
kenndur er við Dynjandisheiði er langur fjallvegur, og fer hann tvisvar
upp í 500 m hæð og einu sinni að auki í 468 m hæð. Í heild er heiðin
talin fremur snjólétt miða við Vestfirskar heiðar og landslag er víða
flatt þannig að hægt er að byggja veg upp úr snjó. Á einstökum stöðum
koma þó stórar fannir, auðvelt er að fara fram hjá flestum en nokkrar
geta verið erfiðar. Hvergi er snjóflóðahætta uppi á heiðinni en einn
staður er þekktur í Dynjandisdal. Víðar geta líklega komið smá spýjur.
Aðstæður
eru allt öðru vísi en á Hrafnseyrarheiði, svo ekki sé minnst á
Breiðadalsheiði. Þar hagar þannig til að efst í heiðunum eru brattir
sneiðingar, mjög snjóþungir með mikilli snjóflóðahættu. Dynjandisheiði
hefur verið lokuð á vetrum hingað til fyrst og fremst vegna
Hrafnseyrarheiðar og svo er einnig um 50 ára gamlan veg að ræða sem
ekki var hugsaður sem vetrarvegur og þolir illa snjómokstur.
Skýrsluna um hugmyndir að vegtengingum og jarðgöngum um Dynjandisheiði má nálgast í heild á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga.