Krónan heldur aftur af bensínlækkunum

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur á einni viku lækkað um 6% og því hafa bíleigendur velt því fyrir sér af hverju olíufélögin lækka ekki eldsneytisverð. Engin hreyfing hefur verið á verðinu innanlands síðan félögin voru mörg hver með tilboð í tilefni af góðu gengi íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking.

Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir því fljótsvarað af hverju félagið lækki ekki verðið. Fallandi gengi krónunnar og um leið sterkur dollar heldur aftur öllum áformum um verðlækkanir. Hið sama sagði Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, þegar rætt var við hana í morgun.

Magnús bendir á að gengi dollars sé nú komið í um 88 krónur, en var fyrir viku kringum 84 krónur. „Samreikningur heimsmarkaðsverðs og gengis er ekki komið í þá stöðu að það gefi tilefni til lækkunar. Gengisþróunin þessa vikuna er búin að éta upp alla möguleika til lækkunar, og gott betur,," segir Magnús.

Verð á Norðursjávarolíu, Brent, stendur nú í 104 dollurum tunnan en var í 111 dollurum fyrir viku. Þegar hæst lét í sumar fór olíutunnan í tæpa 150 dollara.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka