Agnesi Bragadóttur blaðamanni Morgunblaðsins hefur nú verið birt stefna vegna ummæla sinna um Árna Johnsen í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni hinn 9. júlí síðastliðinn.
Í þættinum sagði Agnes meðal annars að Árni ætti að hafa vit á því að „halda kjafti“. „Mér fannst þessi grein Árna náttúrlega algjört reginhneyksli enda finnst mér maðurinn vera reginhneyksli. Hann er eiginlega hálfgert stórslys þessi maður,“ sagði Agnes aðspurð um blaðagrein Árna um Baugsmálið og bætti við: „Hann er dæmdur glæpamaður. Hann var mútuþægur, dæmdur fyrir umboðssvik í tveggja ára fangelsi og svo stígur hann fram, maðurinn sem aldrei iðraðist, hafði aldrei gert neitt rangt og upphefur sjálfan sig...“
Árni krefst þess í kærunni að Agnes greiði honum 5 milljónir kr. í miskabætur vegna þess skaða sem hann hafi orðið fyrir vegna ummælana. Þá krefst hann 500.000 kr. í birtingarkostnað á dómnum í þremur dagblöðum auk þess að málskostnaður falli á Agnesi.
Þann 6. febrúar 2003 dæmdi Hæstiréttur Árna Johnsen í 2 ára fangelsi fyrir fjárdrátt, mútuþægni og umboðssvik. Í ágúst 2006 veittu svo handhafar forsetavalds Árna uppreisn æru.