„Allir hlustuðu þegar hann talaði"

Afkomendur Sigurbjörns Einarssonar báru kistu hans úr kirkju.
Afkomendur Sigurbjörns Einarssonar báru kistu hans úr kirkju. mbl.is/Ómar

„Þarna fór maður sem íslenska þjóðin dáði og leit á sem andlegan föður. Það hlustuðu allir þegar hann talaði," sagði Jón Dalbú Hróbjartsson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, í minningarorðum um Sigurbjörn Einarsson, biskup.

Sigurbjörn Einarsson var jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag og jarðsettur í Fossvogskirkjugarði við hlið Magneu Þorkelsdóttur, eiginkonu hans, sem lést árið 2006. Þau áttu saman 73 ár og varð átta barna auðið.

Jón Dalbú sagði í minningarorðum sínum, að Sigurbjörn hefði verið í senn hámenntaður guðfræðingur, sálusorgari, prédikari, sálmaskáld og brautryðjandi í kirkjustarfi og öðru menningarstarfi, áhugamaður um listir, bókmenntir og menningu en fyrst og fremst litið á sig sem þjón Guðs. 

„Hann trúði á Guð, hinn eina skapara himins og jarðar, allra heima drottinn, allra þjóða guð, allra manna föður, eins og hann orðar sjálfur í einni prédikun. Sigurbjörn fagnaði allri umræðu um trú og vísindi. Hann var manna fróðastur í hugmynda-, trúarbragða- og mannkynssögu liðinna alda, Hann var gjörkunnugur straumum og stefnum í vísindum og heimspeki en hvikaði aldrei frá þeirri trúarsannfæringu sinni væri að á bakvið lífríkið og sköpunarverkið undursamlega er Guð."

Jón Dalbú sagði, að Sigurbjörn hefði oft vitnað í sköpunarstef hinnar helgu bókar: Það varð kvöld og það varð morgunn. Fáir hefðu lifað eins mörg kvöld og morgna og Sigurbjörn Einarsson, 97 ár. Hann hefði vitað og þekkt af eigin raun að dagarnir voru misbjartir en dagur vonarinnar væri ávallt fyrir stafni „Hann treysti á morgunsólina einu og sönnu," sagði Jón Dalbú. 

Afkomendur Sigurbjörns báru kistu hans úr kirkju. Það voru þeir Sigurbjörn Einarsson, Sigurbjörn Þorkelsson, Sigurbjörn Bernharðsson, Guðjón Davíð Karlsson, Garðar Árnason og Kjartan Þórðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka