Frístundabændur á Húsavík gengu á fjöll í morgun og smöluðu fé sínu sem síðan var rekið að Húsavíkurrétt í Bakkalandi. Aðalsteinn Árni Baldursson gangnaforingi sagði göngurnar hafa gengið vel, heimtur góðar og féð vænt og fallegt.
Aðalsteinn Árni segir göngur og réttir á Húsavík alltaf verða vinsælli og vinsælli. Auk heimamanna eru útlendingar farnir að kom með þeim á fjöll.
„Þetta eru aðallega krakkar sem eru að vinna hér yfir sumarið, bæði hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum, hvalasafninu og veitingastöðunum. Þau enda svo á því a fara með okkur í göngur og hjálpa svo til við að draga féð í dilk,“ segir Aðalsteinn Árni og bætti við að erlendir ferðamenn hefðu einnig verið með í þetta skipti. „Hugsanlega er því hér um að ræða nýja afþreyingu fyrir ferðamenn sem heimsækja okkur,“ sagði hann að lokum.