Græna netið vill landsskipulag á næsta þingi

Græna netið hvetur alþingismenn og sveitarstjórnarmenn til að ná áttum …
Græna netið hvetur alþingismenn og sveitarstjórnarmenn til að ná áttum í þessu mikilvæga máli. mbl.is/Golli

Á fundi Græna netsins um landsskipulag á Kaffi Hljómalind í morgun var samþykkt ályktun þar sem lýst er vonbrigðum með afdrif landsskipulagsákvæða í skipulagsfrumvarpi umhverfisráðherra á því löggjafarþingi sem nú er að ljúka og hvatt til þess að alþingi samþykki landsskipulag á vetri komanda.

Ályktun fundarins hljóðar svo:
 
 
„Landsskipulag er nauðsynlegt stjórntæki fyrir almannavaldið í skipulags- og umhverfismálum. Það getur hindrað handahófsákvarðanir og deilur sem nú koma niður á náttúruverðmætum og tefja framkvæmdir. Opin og gagnsæ vinnubrögð við mótun landsskipulagsáætlana geta leitt til aukinnar sáttar í þessum efnum, agað stefnumótun og áætlanagerð og bætt lýðræði í samfélagi okkar. Slík skipan er við lýði í öllum hinu norrænu ríkjunum og víðast annarstaðar í grannlöndunum.
 
Græna netið lýsir vonbrigðum með að landsskipulag verði ekki lögbundið á þinginu sem nú er að ljúka. Þar með hefur alþingi látið ónýtt tækifæri til að stíga mikilsvert framfaraskref sem hefði breytt stöðu umhverfismála og orðið sveitarfélögunum mikill styrkur í skipulagsmálum, ekki síst á landsbyggðinni.
 
Græna netið væntir þess að landsskipulagsákvæðin verði lögð fyrir alþingi á ný í vetur og hvetur alþingismenn og sveitarstjórnarmenn til að ná áttum í þessu mikilvæga máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert