Hugsanlegar undantekningar frá sameiningarreglum

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagði í ávarpi á ársþingi Fjórðungssambands Vestfjarða á Reykhólum í gær, að nauðsynlegt væri að ræða kosti og galla á hver lögbundinn lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélögum ætti að vera en hann er nú 50 manns.

Fram kemur á vef Reykhólahrepps, að ráðherrann hafi áður viðrað þá skoðun, að rétt væri að hækka lágmarkið upp í eitt þúsund manns. Hann sagði í gær, að nauðsynlegt væri að ræða kosti og galla í þessum efnum, kallaði eftir viðhorfum sveitarstjórnarmanna og sagði stefnt að málþingi í haust.

Lagafrumvarp yrði að líkindum lagt fram á Alþingi í vetur en væntanlega myndi sveitarfélögum verða veitt svigrúm til að velja sameiningarkosti. Jafnframt væri hugsanlegt að gera undantekningar vegna staðbundinna aðstæðna. Kristján sagði að breytingarnar ættu að geta gengið í gegn á árunum 2012 til 2014.

Vefur Reykhólahrepps

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert