Kom 17 ára – sendur úr landi 23 ára

Mark Cumara með foreldrum sínum og systursyni í Þorlákshöfn.
Mark Cumara með foreldrum sínum og systursyni í Þorlákshöfn.

Útlendingastofnun hefur úrskurðað að Mark Cumara, 23 ára Þorlákshafnarbúi, þurfi að vera farinn af landi brott um miðjan september. Móðir hans og uppeldisfaðir eru bæði íslenskir ríkisborgarar og hafa búið á Íslandi síðasta áratug. Systir hans, amma hans og afi á Íslandi eru líka íslenskir ríkisborgarar.  Sjálfur hefur hann búið í Þorlákshöfn hjá foreldrum sínum í fimm ár.

Skiljum þetta ekki

Mark er flakari hjá Frostfiski, og þar vinnur öll fjölskyldan. „Hann er duglegur, vinnur vel, mætir alltaf á réttum tíma og borgar sína skatta og sín lán. Nú á bara að senda hann út,“ segir Alexander Aksel Andrésson, pabbi Marks.

„Við þekktum ekki reglurnar og vorum ekki vöruð við því að allt í einu yrði hann ólöglegur heima hjá sér.“ Alexander skilur ekki hversvegna vegna fjölskyldan fær ekki frest. „Útlendingastofnun segir nei.“

Hann trúir því ekki að vísa eigi syninum úr landi, frá foreldrum sínum, heimili og vinnustað, þar sem allt hefur verið í góðu lagi árum saman.

„Hann á bara eina gamla ömmu á Filippseyjum, hvernig á hann að lifa þar? Mamma hans fékk ríkisborgararétt 2006 en hann ekki, en okkur datt samt ekki í hug að hann ætti bara að fara frá landinu. Ofan á önnur vandræði er nú verið að útvega Mark nýtt vegabréf með mikilli fyrirhöfn. Sú vinna fer í gegnum Noreg, því Filippseyjar eru ekki með sendiráð hér á landi. Við höfum hvorki flugmiða né vegabréf ennþá og vildum helst fá frest og hjálp við að gera Mark löglegan í landinu, því hann er ekkert minni Íslendingur en við,“ segir Alexander.

Útlendingastofnun segir foreldra bera ábyrgð á því að börn hafi dvalarleyfi þar til þau eru lögráða og eftir það beri þau ábyrgðina sjálf. Stofnunin geti ekki tekið það að sér. Lög kveði á um að útlendingur í ólögmætri dvöl fari úr landi.

Mál Marks er ekki í brottvísunarferli, en engu að síður er honum gert að hverfa úr landi fyrir 16. sept. Hann bað um lengri frest en fékk ekki. Sækja þarf skriflega um frest og tilgreina ástæður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka