Frönsk kona, sem um 50 björgunarsveitarmenn leituðu að í nótt við Landmannalaugar, er fundin. Sást til konunnar laust eftir kl. 8 þar sem hún var á gangi í átt að Landmannalaugum. Þyrlu, sem var á leið á leitarsvæðið, var þá snúið við. Konan er heil á húfi að sögn lögreglu, en var talsvert þreytt.
Konan fór í hádeginu í gær úr Landmannalaugum og hugðist ganga í Hrafntinnusker. Skálavörður í Langadal lét vita þegar konan skilaði sér ekki í gærkvöldi. Voru þá björgunarsveitir kallaðar út og voru um 50 menn frá Hellu, Hvolsvelli, Vík og Kópavogi við leit þegar mest var ásamt fjórum hundum.
Að sögn Svans Sævars Lárussonar, formanns Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu, var logn á svæðinu í nótt og tiltölulega hlýtt en nokkur rigningarúði og svartaþoka. Því voru aðstæður til leitar ekki góðar. Þegar síðast heyrðist frá konunni í gær taldi hún sig vera komin hálfa leið í Hrafntinnusker en þegar hún kom fram í morgun var hún komin aftur í Landmannalaugar.
Konan, sem leitað var að, mun vera ein á ferð. Hún hefur dvalið í Landmannalaugum síðustu daga og sl. fimmtudag datt hún og skarst og ók skálavörður henni til læknis á Hvolsvelli.
Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa nokkrum sinnum áður í sumar þurft að leita að göngumönnum við Landmannalaugar.