Tveir íslenskir karlmenn sem voru á leið í frí til Albufeira í Portúgal voru á fimmtudag skildir eftir í Málaga á Spáni vegna drykkjuláta sem þeir voru með um borð í flugvél á leið út. Flugferðin var farin með flugfélaginu Futura en um var að ræða leiguflug fyrir ferðaskrifstofuna Úrval Útsýn.
Að sögn Guðrúnar Sigurgeirsdóttur, markaðsstjóra Úrvals Útsýnar, taka flugfélög með ströngum hætti á drykkjulátum í flugvélum. Ekki sé algengt að bregðast þurfi við með því að skilja farþega eftir þar sem millilent er áður en komið er á leiðarenda.
„Það voru tveir farþegar sem reyktu um borð og voru með drykkjulæti í flugvélinni. Við því brást áhöfn vélarinnar og mennirnir voru skildir eftir í Málaga á Spáni,“ segir Guðrún.
Áhöfn flugvélarinnar vann að því ásamt lögreglu að koma mönnunum frá borði og gekk það greiðlega, samkvæmt heimildum 24 stunda. Mennirnir voru því næst handteknir.