Vísar ásökunum bæjarstjóra á bug

Guðríður Arnardóttir.
Guðríður Arnardóttir.

Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, vísar ásökunum bæjarstjóra Kópavogs á bug, sem veltir því fyrir sér í Morgunblaðsfrétt, sem birtist í dag, hvort nýstofnuð íbúasamtök Lindahverfis séu af pólitískum rótum sprottin.

Guðríður hefur sent frá sér yfirlýsingu sem er eftirfarandi:

„Í Morgunblaðinu þann 6. september veltir bæjarstjóri Kópavogs því fyrir sér hvort nýlega stofnuð íbúasamtök Lindahverfis séu af pólitískum rótum sprottin.  Hann fullyrðir að ég hafi staðið fyrir utan stofnfund samtakanna í Lindaskóla og formælandi samtakanna Sigurður Þór Sigurðsson farið ítrekað út að leita ráða hjá mér. 

Þetta er hrein lygi hjá bæjarstjóra Kópavogs.  Hið sanna er að ég fór ekki á umræddan stofnfund þótt ég sé íbúi í Lindahverfi einmitt til að koma í veg fyrir allar dylgjur um pólitíska tengingu samtakanna. 

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður á mbl.is hafði aftur á móti samband við mig og óskaði eftir viðtali.  Þar sem hún beið eftir að fundurinn kláraðist bað hún mig að hitta sig á skólalóð Lindaskóla sem ég og gerði.  Þegar ég mætti á svæðið var hún að klára viðtal við formælanda samtakanna Sigurð Þór og beið ég eftir henni í anddyri skólans í 5 mín. 

Ég hef aldrei nokkurntíma talað við Sigurð Þór enda þekki ég manninn ekki neitt.  Ég er orðin ýmsu vön frá  bæjarstjóra Kópavogs og hann ausið yfir mig skömmum og lygum til að drepa málum á dreif.  En verra er það þegar hann ræðst á saklausa bæjarbúa Kópavogs líkt og hann ræðst gegn Sigurði Þór og nýstofnuðum samtökum Lindahverfis. 

Það er sorglegt að æðsti embættismaður bæjarins skuli bregða fyrir sig lygi til að gera andstæð sjónarmið tortryggileg,  það er honum sjálfum til minnkunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert