„Ytri-Rangá stöppuð af laxi“

Veiðimenn bíða þess að vigta aflann við Ytri-Rangá.
Veiðimenn bíða þess að vigta aflann við Ytri-Rangá. mbl.is/Einar Falur

Áin er bókstaflega stöppuð af laxi,“ sögðu fjórir lukkulegir veiðifélagar sem voru að taka saman við Ytri-Rangá. Þeir voru í fyrsta maðkahollinu, þar sem veiðin var með ólíkindum góð. Þeir fengu 112 laxa á tvær stangir á þremur dögum.

„Á bestu vaktinni fengum við 25 á tveimur tímum,“ sögðu þeir.

Í fyrsta maðkahollinu veiddust 1.119 laxar á 18 stangir, eða 62 að meðaltali á stöng! Jafnast það á við meðal-sumarveiði í ám eins og Miðfjarðará og Laxá í Dölum. Svona tölur hafa ekki sést í stangveiði hér. Þegar er metveiði í ánni, 9.154 laxar, en 7.497 veiddust í Eystri-Rangá í fyrra. „Ætli þetta sé ekki heimsmet,“ sagði einn veiðimannanna.

Þegar morgunvaktinni lauk renndi hver bíllinn af öðrum að skráningarhúsinu, þar sem Matthías Þorsteinsson veiðivörður tók á móti veiðimönnum, vó og mældi hvern fisk og skráði í veiðibókina. Veiðimenn tíndu laxa úr bílunum og þegar myndaðist röð þar sem beðið var skráningar. Það var hálftíma ferli. Fólk skiptist á sögum af vaktinni. Einn fékk þrjá neðan við Ægissíðufoss og missti tvo, annar landaði tveimur á Rangárflúðum en setti í sjö sem láku af. Veiðin fékkst ýmist á flugu, maðk og spún.

„Það er ofboðslega mikið af fiski hér,“ sagði einn. „Hann stekkur um allt en er ekki eins viljugur að taka maðkinn og hjá fyrsta maðkahollinu. Ég heyrði af einni stöng sem fékk 300 þá. Nú virkar allt agn vel.“ Svo lækkaði hann röddina: „Kannski er bara allt of mikið af fiski í ánni.“

Þegar skráningu lauk og veiðimenn voru farnir í mat taldi Matthías laxa morgunsins. Þeir voru 78. „Það var meira síðustu dagana.“ Svo brosti hann og sagði: „En þetta er frábær veiði og mikið gaman.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert