Árásarmanna leitað

mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að hópi manna sem eru grunaðir um að hafa ráðist á karlmann og sært hann með hnífi á fótlegg í húsnæði í Norðurmýri við Snorrabraut í dag. Að sögn lögreglu hafa tveir verið handteknir, en fjögurra manna er nú leitað.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni hafði sjálfur samband við lögregluna, en tilkynning barst kl. 13:30.

Að sögn lögreglu sagði maðurinn að hópur erlendra manna hafi gert tilraun til að brjótast inn í húsnæðið í þeim tilgangi að ráðast á hann, en fórnarlambið er einnig af erlendu bergi brotið.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru árásarmennirnir á bak og burt. Þeir komu hins vegar að fórnarlambinu sem var með tvö stungusár á öðrum fótlegg. Hann er ekki sagður vera alvarlega slasaður, en hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Tveir menn, sem voru á vettvangi þegar lögreglu bar að garði, hafa verið handteknir. Þeir hafa stöðu sakborninga.

Að sögn lögreglu voru mennirnir allir undir áhrifum áfengis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert