Árlegt ruddaboltamót NMÍ fór fram á gervigrasvellinum á Torfnesi á Ísafirði í gær. „Mótið hefur aldrei verið eins ruddalegt og í ár,“ sagði Gunnar Atli Gunnarsson. „Það þurfti fjóra dómara til að dæma úrslitaleikinn í karlaflokki.“
Í ruddabolta er aðeins ein regla, að það eru engar reglur. Var því þörf á dómurum? „Við tókum þá reglu upp að leikmaður fær tveggja mínútna brottvísun fyrir hrottalegt brot, þetta er ruddabolti ekki hrottabolti,“ sagði Gunnar.
Í karlaflokki sigruðu „Mudsuckers“ og hlutu „Ruddann“ í verðlaun sem er farandgripur. Í kvennaflokki sigruðu „Hósana Heilts“ og hlutu „Truntuna“ í verðlaun sem einnig er farandgripur.