Óvenjuleg staða er komin upp nú í haust hjá dagforeldrum í Reykjavík. Fréttir af löngum biðlistum eftir plássi hjá dagforeldrum hafa verið daglegt brauð á þessum tíma árs, en nú ber svo við að framboð eftir plássum virðist vera meira en eftirspurnin, a.m.k. í austurhluta borgarinnar.
Í Grafarvogi heyrðist af konu sem ætlaði að taka upp þráðinn aftur sem dagmóðir eftir nokkura ára hlé, en þá ber svo við að hún fær engin börn. Á barnalandi má svo sjá langa lista af dagforeldrum sem auglýsa laus pláss í byrjun september. Á sama tíma í fyrra var barist um plássin.
„Þetta er alveg ný staða,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs. „Ástæðan er ekki alveg ljós en við höfum verið að fylgjast með þessu síðan á síðasta leikskólaráðsfundi. Að hluta til getur þetta stafað af því að mönnunin á leikskólunum hefur verið mun betri í haust en svo hefur líka borið á því að dagforeldrar haldi aðeins að sér höndum við að lofa plássi því þau lentu mörg í vandræðum í fyrra. Þá sátu þau sum eftir með of mörg börn vegna þess að við gátum ekki tekið þau öll á leikskólana og létt þannig á listanum þeirra.“