Er skessunni illa við fjölmiðla?

Skessan á Reykjanesi.
Skessan á Reykjanesi. vf/Hilmar

Skessunni sem býr í helli við Reykjanesbæ virðist vera illa við fjölmiðla. Útsendingarbúnaður sem komið er fyrir í grennd við skessuna bilar og myndir af henni skemmast.

Víkurfréttir greina frá því á vef sínum að svo virðist vera að skessan í fjallinu, sem flutti í nýjan helli í Reykjanesbæ á laugardag, leggi álög á fjölmiðlamenn. Hvort henni sé illa við fjölmiðlaumfjöllun á eftir að koma í ljós en erfitt hefur reynst að spyrja skessuna sjálfa.

Vandræði fjölmiðla byrjuðu strax á fimmtudagskvöld í útsendingu Stöðvar 2 frá Reykjanesbæ. Stöðin hafði komið útsendingarbíl sínum fyrir utan við skessuhellinn. Vandræði voru með sjónvarpskapla um kvöldið og þegar aka átti á brott eftir útsendinguna hreyfðist útsendingarbíllinn ekki úr stað. 

Á laugardag unnu Víkurfréttir sjónvarpsfrétt fyrir Stöð 2 um skessuna. Fréttin komst aldrei í útsendingu þar sem tölvuskráin sem innihélt fréttina eyðilagðist og ekki var hægt að koma nýrri skrá í útsendingu í tæka tíð.

Vandræðin voru ekki á enda, því ljósmyndari Víkurfrétta átti í stökustu vandræðum með að ljósmynda viðburðinn þegar skessan flutti inn. Stór hluti myndanna var ónýtur.

Héldu nú margir að vandræðin væru á enda.

Á sunnudagsmorgun gekk hins vegar allt á afturfótunum við að koma myndum af skessunni til Fréttastofu Stöðvar 2. Skemmdir komu fram í myndum þar sem skessuna var að finna.

Á síðustu stundu tókst þó að koma myndunum í hús til Stöðvar 2.

Vefur Víkurfrétta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert