Palestínska flóttafólkið frá Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak, sem mun setjast að á Íslandi, kemur til landsins í kvöld. Um er að ræða 29 manns. Ísland veitir 20-30 flóttamönnum hæli á hverju ári og á undanförnum árum hefur áhersla verið lögð á að aðstoða konur sem eiga í erfiðleikum, ekki síst einstæðar mæður.
Flóttafólkið kemur til landsins kl. 23.10 eftir langt og strangt ferðalag frá Írak í gegnum Sýrland.
Fjölskyldunum verður svo tafarlaust ekið til sinna nýju heimkynna á Akranesi.
Flóttamannanefnd vann að vali fjölskyldnanna sem boðið var hæli hér á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
Íslensk stjórnvöld, Akranesbær og Rauði krossinn sjá um móttöku fjölskyldnanna. Fólkið tekur þátt í sérstöku tólf mánaða aðlögunarverkefni sem felur meðal annars í sér að Akranesbær útvegar því húsnæði, félagslega ráðgjöf, íslenskukennslu og samfélagsfræðslu. Börn og ungmenni munu sækja leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla í bænum. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.