Landbúnaðarháskóli Íslands vinnur nú að gerð gagnagrunns um
landnýtingu. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnýtingar er mjög
stór þáttur í heildarlosun Íslands og vegur þar þyngst framræst
votlendi. Aðeins brennsla jarðefnaeldsneytis losar meira af
gróðurhúsalofttegundum á Íslandi.
Á vef landbúnaðarháskólans segir að starfsmenn LbhÍ hafi farið víða um land í sumar og safnað gögnum á svæðum sem höfðu verið valin tilviljanakennt.
Annars vegar var safnað upplýsingum um almenna
skiptingu landsins með tilliti til landnýtingar og hins vegar
upplýsingum framræslu votlendis.
Þess má geta að á
hverju völdu svæði eru gengnar tvær fimm kílómetra langar línur og 10
punktar skoðaðir í hverri línu – og oft er farið yfir fjöll og
firnindi. Við hvern punkt eru svo skráðir fjölmargir umhverfisvísar sem
gera vísindamönnum kleift að flokka landið eftir.