Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, gangsetti í dag, ásamt Raimonds Vejonis, umhverfisráðherra Lettlands, nýja endurvinnslu PET-Baltija í Riga í Lettlandi. Verksmiðjan, sem er að meirihluta í eigu Gámaþjónustunnar, er stærsta verksmiðja sinnar tegundar í Eystrasaltslöndunum.
Gangsetning verksmiðjunnar var eitt embættisverka Ingibjargar Sólrúnar sem er í opinberri heimsókn í Lettlandi í dag og á morgun, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Við opnunina minnti utanríkisráðaherra á þann fjölda íslenskra fyrirtækja sem starfar nú í Lettlandi og sagði það enga tilviljun að svo mörg þeirra hefðu beint sjónum sínum þangað. „Það er gott að vera Íslendingur í Lettlandi og fyrirtækjum okkar hefur verið vel tekið. Íslendingar og Lettar vinna vel saman. Við eigum margt sameiginlegt, svo sem opna og kraftmikla markaði, duglegt og velmenntað starfsfólk og löngun til að takast á við nýja öld,” er haft eftir ráðherra í tilkynningu.
Fyrr í dag átti Ingibjörg Sólrún fund með lettneskum starfsbróður sínum, Maris Riekstins, og á morgun hittir hún forseta landsins, Valdis Zatlers. Þá er þáttur íslenskra fyrirtækja í heimsókninni töluverður, en á meðan henni stendur heimsækir utanríkisráðherra nokkur fyrirtæki sem eru að hluta eða öllu leyti í eign Íslendinga, m.a. flugfélagið Latcharter Airlines, Norvik Banka og SIA Hospital Organizer.